Fréttasafn

Raða eftir:

Dagsetningu

Nafni

2020/10/9

Fyrsta lota Borgarlínunnar skilar samfélaginu tugmilljarða ábata

  • Fyrsta lota Borgarlínunnar, sem áætlað er að opni árið 2024, er þjóðhagslega arðbært verkefni samkvæmt félagshagfræðilegri greiningu (e. socio-economic analysis) sem unnið var af COWI og Mannviti.
  • Horft er til 30 ára í matinu en samfélagslegur ábati er metinn tæplega 26 milljarða kr. að núvirði umfram stofn- og rekstrarkostnað. Metin voru áhrif á alla samgöngumáta í nýju umferðarlíkani fyrir höfuðborgarsvæðið.
  • Notast var við sömu aðferðafræði og beitt er víða erlendis m.a. Metro í Kaupmannahöfn, léttlestarkerfi í Óðinsvéum og Árósum. Er þetta í fyrsta skipti sem slíkt er gert fyrir stóra samgönguframkvæmd á Íslandi.

Fjárfesting í uppbyggingu almenningssamgangna á fyrstu lotu Borgarlínunnar mun skila samfélagslegum ábata sem nemur 26 milljörðum króna og arðsemi verkefnisins (innri vextir) er metin rétt tæp 7%. Þetta er meðal þess sem félagshagfræðileg greining á nýju samgöngukerfi á höfuðborgarsvæðinu leiðir í ljós. Í efnahagslegri greiningu OECD á Íslandi árið 2019 var ein helsta ráðleggingin til að bæta opinberar fjárfestingar sú að framkvæma ítarlega félagshagfræðilega greiningu áður en ráðist er í stór innviðaverkefni.

Virkar samgöngur spara tíma og pening
Borgarlínan felur í sér stóraukna þjónustu við almenning með styttri ferða-og biðtíma, færri skiptingar og betra aðgengi að biðstöðvum. Tímasparnaðurinn sem í þessu felst skiptir farþega miklu því samkvæmt greiningunni er búist við að ábati þessi svari til 94 milljarða króna að núvirði á þrjátíu ára tímabili. Þessar umbætur munu jafnframt leiða til verulegrr fjölgunar farþega almenningssamgangna Strætó og Borgarlínu. Samhliða uppbyggingu Borgarlínunnar verða innviðir fyrir hjólreiðafólk og gangandi stórbættir. Þessi innviðauppbygging mun stytta ferðatíma hjólreiðafólks verulega og skilar samfélagslegum ábata upp á 1,2 milljarða króna

Vistvænn kostur sem eykur umferðaröryggi
Aukin notkun almenningssamgangna og hjólreiða draga úr bílaumferð sem leiðir af sér minni hljóðmengun, loftmengun og losun gróðurhúsalofttegunda. Tilkoma Borgarlínunnar skilar einnig samfélagslegum ávinningi vegna fækkunar bílslysa um 2,6 milljarða króna.

Skýrsluna er að finna hér á vef Borgarlínu - https://borgarlinan.is/data/A133201Report%20Socioeconomic%20analysisFINAL.pdf

Nánari upplýsingar veitir
Lilja Guðríður Karlsdóttir,
samgönguverkfræðingur hjá Verkefnastofu Borgarlínunnar
845 9966 // lilja@borgarlina.is

Lesa meira

2020/10/29

Samningur undirritaður um verkefnastjórn Borgarlínunnar

Þann 27. október 2020 var undirritaður samningur um verkefnastjórnun og ráðgjöf fyrir Borgarlínuna. Ráðgjafateymið samanstendur af fyrirtækjunum Mannviti, Cowi frá Danmörku og Arup frá Englandi.

Teymið var eitt af fjórum teymum sem sendu inn tilboð í verkefnið sem verkefnastofa Borgarlínunnar auglýsti á vormánuðum. Þrjú teymi voru valin eftir forval og tóku þau þátt í umfangsmiklu tilboðsferli í sumar en í lok þess hlaut teymi Mannvits, Cowi og Arup hæstu einkunn fyrir útfærslu auk þess sem tilboð þeirra var hagstæðast. Teymið býr jafnframt yfir mikilli reynslu af undirbúningi, skipulagi og framkvæmd sambærilegra verkefna á erlendri grundu sem mun nýtast vel við framvindu verkefnisins. En teymið hefur komið að sambærilegum verkefnum í Danmörku, Noregi og Englandi.

Ráðgjöfin felur í sér að veita verkefnastjórn og sérfræðiþekkingu á lykilsviðum við uppbyggingu Borgarlínu, nýs samgöngukerfis fyrir almenning á höfuðborgarsvæðinu. Hlutverk ráðgjafans felur m.a. í sér eftirfarandi þætti:

Verkefnastjórnun
Verkefnisgát, þar með talið kostnaðar- og framvindugát og áætlanagerð
Gæðastýringu, áhættumat, breytingastjórnun og innkaup
Stjórnun á hönnunarferli
Gerð og eftirfylgni samskipta- og samráðsáætlana
Stuðningsþjónustu
Stjórnun á framkvæmdatíma
Aðstoð við prófun og gangsetningu

Teymi Mannvits, Cowi og Arup er þannig ætlað að veita forystu og stuðning á lykilsviðum verkefnisins allt frá undirbúningi forhönnunar til afhendingar þess að loknum framkvæmdum.

Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar og Páll Björgvin Guðmundsson framkvæmdastjóri SSH undirrituðu samninginn fyrir hönd verkkaupa, en Borgarlínuverkefnið er hluti af Samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins sem ríkið og sex sveitarfélög á svæðinu hafa skrifað undir um uppbyggingu á samgönguinnviðum á svæðinu. Verkefnið mun heyra undir félagið Betri samgöngur ohf. sem stofnað var í byrjun október og mun sjá um uppbyggingu samgönguinnviða í samræmi við Samgöngusáttmálann.

Markmið Samgöngusáttmálans er að auka öryggi, bæta samgöngur fyrir alla ferðamáta og minnka tafir, stórefla almenningssamgöngur og draga úr mengun af völdum svifryks og losun gróðurhúsalofttegunda til að standa við loftslagsmarkmið stjórnvalda og sveitarfélaga.

Frekari upplýsingar: Hrafnkell Á. Proppé.
Sími 892 2698
hrafnkell@borgarlinan.is


Myndin var tekin við undirritunina en á henni eru frá vinstri: Örn Guðmundsson forstjóri Mannvits, Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar og Páll Björgvin Guðmundsson framkvæmdastjóri SSH.

Lesa meira

2020/09/18

Tæp 60% vilja nýta aðra ferðamáta en einkabílinn

Þetta er meðal niðurstaðna úr mælingum Maskínu sem hefur spurt höfuðborgarbúa annars vegar hvernig þeir ferðist til og frá vinnu og hins vegar hvernig þeir væru helst til í að ferðast þá leið. Alls hefur Maskína lagt þessar spurningar fyrir þrisvar sinnum; í ágúst 2019, febrúar og júní 2020.

Hlutfall þeirra sem ferðast oftast til vinnu sem bílstjórar á einkabíl hefur farið úr tæplega 72% niður í 63% milli ára. Á sama tíma fjölgaði þeim sem nota oftast strætó, hjóla, ganga eða ferðast sem farþegar í einkabíl.

Hlutur einkabílsins minnkar umtalsvert þegar fólk er innt eftir því hvaða ferðamáta það myndi helst vilja nýta mest, en þá fer hlutur einkabílsins úr 42,6% niður í 35,3% milli ára. Af þeim sem keyra í vinnuna segjast um helmingur vilja gera það áfram, 21% sjá fyrir sér að nota reiðhjól, 14% fótgangandi og um 6% í Strætó.

Um 26,7% höfuðborgarbúa myndu helst vilja hjóla á reiðhjóli í vinnuna, frá 19,9% árið áður, en 19,7% myndu kjósa að ganga, 8% að nota strætó og 4,5% að fá far í einkabíl. Þeir sem myndu helst vilja nota „annan hátt“ fara úr 2,6% upp í 5,1% sem rekja má að mestu til aukinnar rafskutluvæðingar.

Þetta eru jákvæðar fréttir fyrir umhverfið okkar og lýðheilsu höfuðborgarbúa og í samræmi við eflingu almenningssamgangna sem mun eiga sér stað á næstu árum, frá þróun Borgarlínunnar og Strætó til umfangsmikilla endurbóta á hjóla- og göngustígakerfi.

Nánar má lesa um kannanir Maskínu á ferðamátum hér

Lesa meira

2020/06/25

Formatyka sigrar í samkeppni um götugögn fyrir Borgarlínuna

Hönnunarmiðstöð Íslands og Borgarlínan stóðu á dögunum fyrir samkeppni um götugögn á Borgarlínustöðvar en tilkynnt var um sigurvegara keppninnar í gær við athöfn í Ráðhúsi Reykjavíkur. Í fyrsta sæti var tillagan Lifa, njóta, ferðast – endurtaka eftir þau Krystian Dziopa og Iga Szczugiel sem saman mynda hönnunarteymið Formatyka.

Annað sætið hlaut tillagan Taktur eftir Önnu Leoniak og Bjarna Kristinsson en þriðja sætið hlotnaðist þeim Karli Kvaran, Lilju Kristínu Ólafsdóttur og Sahar Ghaderi með tillöguna Línan. Alls bárust 16 tillögur í samkeppnina en þrjár þeirra hlutu verðlaun, auk þess sem dómnefnd veitti þrem teymum sérstaka viðurkenningu fyrir vel útfærðar tillögur.

Í umsögn dómnefndar segir:„Tillagan skapar nútímalega táknmynd fyrir Borgarlínu framtíðarinnar og býr til sterkt kennileiti í umhverfinu sem eykur á gæði almenningsrýma. Tillagan byggir á fjölhæfu einingarkerfi og því er auðvelt að laga hana að fjölbreyttum aðstæðum innan borgarlandslagsins. Öll götugögn eru að fullu aðlöguð og felld inn í tillöguna á snjallan hátt. Efnisval, áferðir og litir vinna vel saman og lífga upp á bæjarbraginn. Einstök tillaga með vandaðar lausnir á aðgengi allra.“

Dómnefnd skipuðu Þráinn Hauksson, Marcos Zotes, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, Björg Fenger og Rut Káradóttir.

Með götugögnum er átt við hluti á borð við bekki, upplýsingaskilti, ruslatunnur, ljósastaura og minni skýli. Tilgangurinn með samkeppninni var að til verði banki af götugögnum sem hægt er að velja úr eftir þörfum á hverri stöð. Götugögnin, sem einkenna munu Borgarlínustöðvarnar í öllum sveitarfélögum, eiga að hafa samræmt og einkennandi yfirbragð sem mun stuðla að betri og heildstæðari borgarbrag auk þess að bæta upplifun notendans.

Allar tillögurnar verður hægt að skoða á sýningunni Næsta Stopp: Hamraborgen hún opnar 25. júni kl 16:15 í Bókasafni Kópavogs og stendur til 3. ágúst.

Lesa meira

Hlaða fleiri