Borgarlínan – nýtt lýðheilsumat bendir til jákvæðra áhrifa á heilsu

Aukin notkun á almenningssamgöngum og virkum ferðamáta, sem gera má ráð fyrir með tilkomu Borgarlínunnar, hefur jákvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu, samkvæmt nýju lýðheilsumati sem gert var fyrir Reykjavíkurborg.

Þá er líklegt að Borgarlínan bæti aðgengi að ýmsum áfangastöðum og þjónustu og auki félagslega samheldni og jöfnuð. Í lýðheilsumatinu kemur einnig fram að góðar og aðgengilegar almenningssamgöngur geti komið í veg fyrir einangrun og útilokun ákveðinna hópa.

Lýðheilsumatið var unnið fyrir Reykjavíkurborg í samstarfi við Betri samgöngur ohf. á fyrstu lotu Borgarlínunnar í Reykjavík. Verkefni var styrkt af Lýðheilsusjóði.

Markmiðið með lýðheilsumatinu var að kanna hvernig innviðir Borgarlínunnar og Nýtt leiðanet almenningssamgangna gætu hámarkað jákvæð áhrif á lýðheilsu og lágmarkað neikvæð áhrif.

Var það gert með því að kanna hvernig Borgarlínan mun nýtast hinum almenna fullorðna íbúa í Reykjavík og hvernig hún nýtist íbúum sem eru annað hvort háðir núverandi samgöngum eða geta ekki nýtt þær, meðal annars börn og ungmenni, fólk með fötlun, eldri borgarar og íbúar af erlendum uppruna. Þá var skoðað hvernig Borgarlínan mun nýtast þeim sem starfa við og sækja þjónustu Landspítala við Hringbraut, Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík.

Hugað að aðgengi og upplýsingagjöf

Í lýðheilsumatinu kemur fram að til þess að fólk nýti sér Borgarlínuna þurfi hún að vera aðgengileg. Á meðal þess sem mælt er með er að huga að aðgengi að og frá borgarlínustöðvum, hafa þar bekki og góða lýsingu og að göngu- og hjólastígar séu aðgengilegir allt árið. Þá þurfi að huga að upplýsingagjöf, bæði á framkvæmdatíma og svo á stöðvunum. Minnt er á mikilvægi fjölbreyttra greiðsluleiða og að aðgengi í borgarlínuvögnum þurfi að taka mið af þörfum mismunandi hópa, til að mynda með þrepalausu aðgengi og nægu rými fyrir fjölbreytt farartæki, líkt og hjólastóla, hjól og barnavagna.

Bættar samgöngur og lífsgæði

Í greiningarvinnunni voru sérfræðingar úr ólíkum áttum fengnir að borðinu, til dæmis í samgöngum, hönnun og skipulagi, lýðheilsu, félagsvísindum og jafnréttismálum. Þá var rætt við fulltrúa ýmissa hagaðila, meðal annars minnihlutahópa og stuðst við þeirra upplifun og ábendingar í ráðleggingunum. Þekkingin sem til varð og var miðlað á milli er mikilvæg afurð lýðheilsumatsins.

Við uppbyggingu borga er mikilvægt að huga að lýðheilsu og vellíðan þeirra sem búa við breytingarnar. Niðurstöður lýðheilsumats á fyrstu lotu Borgarlínunnar í Reykjavík endurspegla mikilvægi þess að hún sé fyrst og fremst hugsuð fyrir fólk, til að bæta samgöngumöguleika ásamt því að auka jöfnuð og sjálfstæði, lýðheilsu og almenn lífsgæði á höfuðborgarsvæðinu, á tímum áskorana vegna hamfarahlýnunar.

Hér má lesa Lýðheilsumat á fyrstu lotu Borgarlínunnar