Verkefnaskrið og norska leiðin

Verkefnastjórnsýsla norska ríkisins fyrir opinberar framkvæmdir og auknar gæðakröfur sem voru innleiddar um aldamótin hafa skilað eftirtektarverðum árangri við að koma böndum á framúrkeyrslu kostnaðar- og tímaáætlana. Samgöngutengd verkefni eru um 30% af heildar verkefnafjárfestingu norska ríkisins, stærsti liðurinn ásamt varnarmálum.

Á ráðstefnu Verkfræðingafélags Íslands „Risaverkefni – Stærðin skiptir máli“ kynnti Ingvild Melvær Hanssen, sérfræðingur norska fjármálaráðuneytisins, hvernig Norðmönnum tókst að minnka framúrkeyrsluna og þróa verkefnastjórnsýslu sem Danir hafa til dæmis tekið sér til fyrirmyndar.

Ráðstefna VFÍ

Ingvild Melvær Hanssen

Vinna norska fjármálaráðuneytisins hófst um aldamót í kjölfar mikillar framúrkeyrslu opinberra framkvæmda þar í landi. Vinnuhópur sem rýndi 11 mismunandi verkefni komst að þeirri niðurstöðu að verkefnin áttu það öll sameiginlegt að umfang þeirra jókst mikið á vinnslutímanum þar sem breytingar og viðbætur á upprunalegu verki stækkuðu það til muna. Annar sameiginlegur vandi var að kostnaður vegna skipulagsmála og undirbúnings verkefna varð alltaf meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir og þá var aukinn kostnaður við verktakasamninga vegna breytinga og viðbótarverkefna í öllum tilvikum veruleg áskorun.

Hlutfall opinberra framkvæmda í Noregi er með því hæsta sem þekkist innan OECD-ríkjanna. Mest er fjárfestingin í samgöngum eða 30% af heildarfjárfestingum norska ríkisins og 30% fara sömuleiðis í varnarmál. Langtíma fjárfestingaráætlun er gerð fyrir báða málaflokka.

Í kjölfar breytinganna sem gerðar voru í Noregi hefur umræðan um opinber verkefni og árangur í verkefnastjórnun breyst mikið. Stór þáttur í þeirri breytingu er til kominn vegna krafna um tvö verkefnahlið á undirbúningsstigi verkefna þar sem óháðir vottaðir aðilar rýna gæði undirbúningsins og verkefni fá ekki grænt ljós til áframhaldandi undirbúnings eða framkvæmdar nema þau standist þessar úttektir. Kröfurnar sem gerðar eru gilda fyrir öll stærri verkefni og eru þær sömu til allra verkefna óháð eðli þeirra. Við innleiðingu breytinganna var lögð áhersla á einfaldleika kerfisins sem komið var á sem, ásamt söfnun upplýsinganna, hefur tryggt mikilvægt gagnsæi fyrir allan almenning. Allar upplýsingar um árangur verkefna hafa verið aðgengilegar fyrir fræðasamfélagið sem hefur byggt upp öflugan gagnagrunn opinberra verkefna sem skapað hefur tækifæri til margskonar greiningarvinnu og samanburð milli fagsviða og ólíkra verkefna.

Þröstur Guðmundsson, forstöðumaður hjá Betri samgöngum.

Þröstur Guðmundsson, forstöðumaður hjá Betri samgöngum, benti á að samkvæmt alþjóðlegum rannsóknum og fyrirliggjandi gögnum væri ein helsta ástæða þess að verkefni færu úr böndunum skrið og breytingar á umfangi verkefna. Hann spurði hvernig umræðan í Noregi hefði þroskast eftir breytingarnar sem gerðar voru á verkefnastjórnsýslunni. Í svari Ingvild Melvær Hanssen kom fram mikilvægi þess að hafa óháða aðila við úttekt verkefna og hið mikla gagnsæi sem var innleitt ásamt greinarvinnu fræðasamfélagsins skipti miklu máli í því samhengi. Þess utan eru verkefni borin saman við samþykktar fjárhagsheimildir frá norska Stórþinginu (í kjölfar rýninnar í seinna verkefnahliðinu) sem byggja á P85 áætlunum (85% líkur á að verkefni kosti minna en samþykkt heimild) en ekki fyrstu drög áætlana á óþroskuðum verkefnum eins og oft hefur átt sér stað hér á landi.

Á ráðstefnunni kom meðal annars fram í máli dr. Ole Jonny Klakegg, prófessors við háskólann í Þrándheimi, að samgönguverkefni væru arðsömustu verkefni hins opinbera í Noregi en hann hefur stundað rannsóknir á þessu sviði síðustu 25 ár.

Upptöku af ráðstefnunni má nálgast hér:
Risaverkefni – Stærðin skiptir mál