„Fólk vill búa á höfuðborgarsvæðinu, það sést glöggt á tölum um húsnæðisskort og vaxandi fjölda íbúa. Samhliða byggist upp þrýstingur á aukna innviðauppbyggingu og þjónustu og það á ekki síst við um samgöngur. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa borið gæfu til að tileinka sér aðferðarfræði sem fjölmörg önnur borgarsvæði hafa gert.
Í dag eru innan við 20% heimila á höfuðborgarsvæðinu í göngufæri við tengingar inn á hátíðnileiðir almenningssamgangna. Með tilkomu Borgarlínunnar hækkar þetta hlutfall í allt að 70%, gangi allar áætlanir eftir. Þannig er Borgarlínan mjög mikilvægur þáttur í byggðarþróunarlegu samhengi,“ segir Atli Björn Levy, forstöðumaður Verkefnastofu Borgarlínunnar í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.
Mynd úr hönnunarhandbók fyrir stöðvar, júní 2024, Artelia, Moe, Gottlieb Paludan, Hnit og Yrki (Team Framtíðarlína).
Grein eftir Atla Björn Levy:
Hvar er best að búa?
Fólk vill búa á höfuðborgarsvæðinu, það sést glöggt á tölum um húsnæðisskort og vaxandi fjölda íbúa. Samhliða byggist upp þrýstingur á aukna innviðauppbyggingu og þjónustu og það á ekki síst við um samgöngur. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa borið gæfu til að tileinka sér aðferðarfræði sem fjölmörg önnur borgarsvæði hafa gert. Að byggja upp vistvæn, skilvirk og notendavæn samgöngukerfi og hugsa verkefnið um leið sem byggðaþróunarverkefni. Markmiðið er að auka flutningsgetu fólks í kerfinu og um þessa innspýtingu ríkir þverpólitísk samstaða, sem er ekki sjálfgefið. Bættum samgönguinnviðum er ætlað að tryggja greiðari umferð og hagkvæmari ferðamöguleika. Skilvirk þjónusta, hugsuð fyrir alla sem þurfa að komast greiðlega á milli staða, innan sinna tímamarka. Með því að efla almenningssamgöngur aukum við flutningsgetuna í kerfinu, margfalt. Fjölbreyttir ferðamátar dreifa álaginu í umferðinni og þannig högnumst við öll á innviðauppbyggingu Borgarlínu og hjólastíga, líka þau okkar sem þurfa að staðaldri að velja einkabílinn.
Hver verða áhrif Borgarlínunnar?
Þegar fjárfest er í viðamiklum innviðum eins og Borgarlínunni fyrir skattfé almennings er eðlilegt að spurt sé hvort þetta sé nægilega kröftug leið og hvort kostnaður sé í takt við væntan ávinning. Borgarlínan er uppbygging til framtíðar því tímabundnir plástrar duga ekki á svo ört stækkandi íbúa- og atvinnusvæði.
Aukin tíðni ferða ásamt sérrýmum Borgarlínu mun tryggja áreiðanleika í ferðatíma, óháð hvaða tíma dags fólk ferðast. Þjónustan verður hraðvirk og greitt er áður en stigið er um borð um fleiri innganga en við höfum vanist hér á landi. Borgarlínuvagnar verða allt að 10 sinnum afkastameiri en einkabíllinn og eru mun rýmri en hefðbundnir strætisvagnar. Þrepalaust aðgengi felur í sér að stöðvarpallar eru í sömu hæð og gólf vagnanna sem tryggir aðgengi fyrir alla hópa samfélagsins. Þeir henta fólki sem ferðast í margvíslegum erindagjörðum; tímabundnu fólki á leið í eða úr skóla og vinnu, fólki með barnavagna og fólki með hreyfihamlanir eða aðrar hamlanir. Við hönnun er líka litið til þarfa blindra og sjónskertra. Lagt er upp með að stöðvar verða betri og meira aðlaðandi, skjólgóðar með upplýsingaskjám sem tengdar verða á kerfisbundinn hátt við hjóla- og göngustíga. Þessi stórbætta og áreiðanlega þjónusta mun gera almenningssamgöngur að raunverulegum valkosti fyrir alla.
Ný framtíðarsýn – 70% heimila í göngufæri
Í dag eru innan við 20% heimila á höfuðborgarsvæðinu í göngufæri við tengingar inn á leiðir almenningssamgangna. Með tilkomu Borgarlínunnar hækkar þetta hlutfall í allt að 70%, gangi allar áætlanir eftir. Þannig er Borgarlínan mjög mikilvægur þáttur í byggðarþróunarlegu samhengi.
Mikilvægt fyrir umhverfið
Umhverfismat Borgarlínu 1. lotu sýnir að áhrif hennar eru heilt yfir jákvæð:
• Loftslagsáhrif: Losun gróðurhúsalofttegunda dregst saman um 1,7% á ári.
• Loftgæði: Mengun vegna NO₂ og svifryks minnkar þar sem bílaumferð minnkar.
• Hljóðvist: Minni umhverfishávaði á mörgum svæðum; mótvægisaðgerðir þar sem þörf er á.
• Samfélag og lýðheilsa: Betra aðgengi, minni mengun, meiri hreyfing – minni mismunun.
Neikvæð áhrif eins og rask á fuglabúsvæðum og fornleifum eru staðbundin og unnið er markvisst að mótvægisaðgerðum. Með ábyrgum vinnubrögðum má lágmarka þessi áhrif. Ýmis álitaefni koma upp í undirbúningnum og að mörgu er að hyggja.
Breyttar áherslur
Borgarlínan er ekki bara fjárfesting í innviðum – hún er fjárfesting í fólki, framtíð og jöfnum tækifærum. Markmiðið í stóra samhenginu er að skapa þéttbýlisumhverfi þar sem börn geta gengið örugg í skólann og búa til raunverulegt val um ferðamáta sem raunverulega þjónar þörfum meirihluta fólks í daglegu lífi.
Hagur okkar allra – hvar er best að búa?
Almenningssamgöngur eru ekki bara umhverfisvænar – þær eru líka hagkvæmar. Reglulega skiptast samgöngur og matur á að vera næst stærstu útgjaldaliðir heimilanna. Það er því til mikils að vinna, bæði fyrir einstaklinga og samfélagið í heild. Það er ágætt að leyfa sér að staldra örlítið við og horfa fram í tímann. Þetta eru ekki eingöngu ákvarðanir sem teknar eru fyrir samfélagið, þetta snertir mig og þig en kannski ekki síst komandi kynslóðir. Þegar innviðauppbygging Samgöngusáttmálans er komin vel á veg og samfélagið er farið að njóta ábatans, hvar er þá best að búa? Að velja sér búsetu nærri samgönguleiðum með mikla fólksflutningsgetu getur þýtt til langs tíma að það komi verulega fram á kostnaðarhliði einstaklingsins og fjölskyldunnar. Með betri alhliða tengingum, minni bílanotkun heimilisins og fleiri og heilbrigðari valkostum á degi hverjum verður það fljótt að skila sér.
Borgarlínan er kröftug leið til að efla almenningssamgöngur og kostnaður við hana, 130 milljarðar króna, eða örlítið lægri upphæð en áætluð fjárfesting Samgöngusáttmálans í stofnvegaframkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu. Allt mun þetta vinna saman en Borgarlínan sem að mestu ekin á sérakreinum verður lykilbreyta í að bæta alla umferð.
Höfundur er forstöðumaður Verkefnastofu Borgarlínunnar.