Hönnun frumdraga á um 2 km löngum vegakafla í Hafnarfirði, sem tilheyrir fjórðu lotu Borgarlínunnar, er hafin. Betri samgöngur hafa undirritað samning við hóp ráðgjafa frá VSÓ Ráðgjöf, VSB, Landslagi, Tendra arkitektum og Úrbana sem allir hafa reynslu af hönnun fyrir Borgarlínuna.
Vegakaflinn verður mikilvæg tenging sem nær frá sveitarfélagamörkum Hafnarfjarðar og Garðabæjar við Reykjavíkurveg að verslunarkjarnanum Firði í miðbæ Hafnarfjarðar.
Samningurinn er stórt og jákvætt skref í átt að framtíðarsýn Borgarlínunnar í Hafnarfirði. Verkefnið snýst um að vinna greiningar sem varða skipulag og legu Borgarlínunnar, staðsetningu stöðva og tengingar við leiðakerfi Strætó og aðra ferðamáta. Rýnt verður í mismunandi valkosti, útfærslu sérrýma og gatnamóta og tillit tekið til aðstæðna í nærumhverfi og göturýmum á leiðinni. Áhersla, eins og alltaf, verður á umferðaröryggi, greiðfærni allra ferðamáta og umhverfið.
Með þessari vinnu styrkjum við forsendur aðalskipulags Hafnarfjarðarbæjar, færumst nær skilvirkara samgöngukerfi og stuðlum að vistvænni samgöngum til framtíðar.
Helstu áherslur í frumdragavinnunni:
-Mat á mismunandi legu Borgarlínunnar í núverandi göturými.
-Staðsetningar kjarnastöðvar og annarra stöðva greind m.t.t. framtíðarskipulags og tenginga við Nýtt leiðanet Strætó sem og aðra ferðamáta
Tímalína:
Vinnan stendur yfir út árið 2025 og skiptist í þrjá megin áfanga. Við uppbrot vinnunnar er tekið mið af því að vinnan nýtist sem best við heildarendurskoðun aðalskipulags Hafnarfjarðarbæjar.