Lokahönnun að hefjast fyrir Borgar­línuna frá Hlemmi að Mörkinni

Betri Samgöngur hafa undirritað samning við VSÓ Ráðgjöf um hönnun fyrir Borgarlínuna sem nær yfir Suðurlandsbraut og Laugaveg að Hlemmssvæðinu meðtöldu. Um er að ræða umfangsmikið hönnunarverkefni þar sem unnið verður bæði að forhönnun og verkhönnun fyrir leið Borgarlínu á þessum kafla.

Atli Björn Levy, forstöðumaður Verkefnastofu Borgarlínunnar, og Vilhjálmur Árni Ásgeirsson, verkefnastjóri hjá VSÓ Ráðgjöf, eftir undirritun samningsins.

Atli Björn Levy, forstöðumaður Verkefnastofu Borgarlínunnar, og Vilhjálmur Árni Ásgeirsson, verkefnastjóri hjá VSÓ Ráðgjöf, eftir undirritun samningsins.

Með samningnum hefst verkhönnun, sem er síðasta stig hönnunar fyrir framkvæmdir, á götukafla sem svarar til um það bil fjórðungs heildarlengdar þessarar fyrstu lotu Borgarlínunnar.

Hönnunarverkefnið felur í sér:
•Hönnun gatna, gatnamóta og stíga fyrir alla samgöngumáta, þar með talið Borgarlínuna, hjólandi- og gangandi umferð.
•Skipulag umferðarstýringar og ljósastýringar fyrir umferð allra samgöngumáta.
•Hönnun Borgarlínustöðva og aðliggjandi svæða til að tryggja greiðan aðgang og gott skipulag.
•Lýsingarhönnun, blágrænar ofanvatnslausnir og umhverfismótun.
•Samræmingu verkefna í samstarfi við sveitarfélög, veitufyrirtæki og aðra aðila sem eiga hagsmuna að gæta á svæðinu.

Verkefnið í tölum:
•Áætlaður fjöldi vinnustunda við hönnunina er 9.400 klst. en samningurinn hljóðar upp á um 240 milljónir króna.
•Heildarlengd hönnunarverkefnisins er um 3,7 km.
•Fjöldi núverandi gatnamóta innan svæðisins eru 17, þar af eru 8 ljósastýrð.
•Hönnunarsvæðinu er skipt í 4 leggi, fjórir verkhlutar verða hannaðir í verkhönnun og þar af einn sömuleiðis í forhönnun.

Samstarf og næstu skref
Hönnunin verður unnin í nánu samráði við Vegagerðina, Reykjavíkurborg og aðra hagsmunaaðila, með áherslu á að skapa öruggt umhverfi með auknum lífsgæðum, skilvirkt og sjálfbært almenningssamgöngukerfi.

Áætlað er að framkvæmdir fari síðan í útboð í áföngum á árunum 2025-2026 og að þær hefjist jafnt og þétt eftir því sem tilskilin leyfi liggja fyrir.

Borgarlínunni er skipt í 6 lotur. Fyrsta lota nær frá Hamraborg í Kópavogi að Krossmýrartorgi í Reykjavík og er 14,5 km. Áætlað er að hún verði fullbúin árið 2031 en fyrstu framkvæmdir hófust á Kársnesi í Kópavogi í janúar 2025 við gerð landfyllinga fyrir Fossvogsbrú.

Fjárfestingar Samgöngusáttmálans:
Áætlaður kostnaður við allar sex lotur Borgarlínunnar er 130,4 milljarðar króna, eða tæplega 42% fjárfestinga Samgöngusáttmálans. Heildarfjárfestingar Sáttmálans á höfuðborgarsvæðinu eru áætlaðar 311 milljarðar króna en stærsti liðurinn eru stofnvegaframkvæmdir sem nema 130,7 milljarðar króna. Þá fara um 40 milljarðar í að byggja upp hjóla- og göngustíga víðs vegar um höfuðborgarsvæðið.