Niðurstaða liggur fyrir í hönnunarútboði Borgarlínunnar en útboðið, sem auglýst var á evrópska efnahagssvæðinu, snéri að hönnun á fyrstu lotu Borgarlínunnar sem er um 14,5km að lengd. Artelia Group, í samstarfi við verkfræðistofurnar MOE og Hnit og arkitektastofurnar Gottlieb Paludan og Yrki arkitekta, var hlutskarpast í hönnunarútboðinu. Hönnunarteymið er öflugt og hefur umfangsmikla og fjölbreytta reynslu af hönnun innviða fyrir vistvænar hágæða almenningssamgöngur. Teymið tekur nú við tillögum sem koma fram í frumdrögum sem kynnt voru í byrjun mánaðar, og mun útfæra verkefnið nánar fram að framkvæmdum í samstarfi við Vegagerðina.
Artelia Group mun leiða teymið en það er alþjóðlegt verkfræðifyrirtæki sem starfar í 40 löndum og hefur yfir 6100 starfsmenn. Artelia hefur mikla reynslu og þekkingu af hraðvagnakerfum (BRT) og hefur hannað yfir 175 km af BRT og 255 af léttlestarkerfum víða um veröld, meðal annars Pau BRT kerfið í Pýreneafjöllunum og Lens BRT kerfið í N-Frakklandi.
MOE eru sérfræðingar í sjálfbærum innviðaverkefnum, og sáu m.a. um grunn- og forhönnun fyrir léttlestarkerfið í Kaupmannahöfn. Danska stofan Gottlieb Paludan Architects er þekkt fyrir að hanna lausnir fyrir innviði á borð við léttlestir, hraðvagnakerfi og umferðamiðstöðvar víða um heim. Þá eru Yrki arkitektar og Hnit lykilaðilar í teyminu og með nauðsynlega staðbundna þekkingu. Hnit verkfræðistofa sérhæfir sig í alhliða verkfræðiráðgjöf á sviði mannvirkjagerðar og Yrki arkitektar bjóða upp á alhliða þjónustu á sviði arkitektúrs og skipulags.
Borgarlínuverkefnið er hluti af samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Ríkið og sex sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, Garðabær, Hafnarfjörður, Kópavogur, Mosfellsbær, Reykjavík og Seltjarnarnes, undirrituðu árið 2019 tímamótasamkomulag um metnaðarfulla uppbyggingu á samgönguinnviðum og almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu til fimmtán ára.