Fossvogsbrú fór í hönnunarsamkeppni í byrjun árs 2021. Að keppninni stóðu Reykjavíkurborg, Kópavogsbær og Vegagerðin. Ákveðið var að fara í hönnunarsamkeppni þar sem staðsetningin yfir Fossvog er einstök á höfuðborgarsvæðinu og mikill vilji hjá sveitarfélögunum að þar rísi mannvirki sem fegri umhverfið um leið og það þjónar íbúum sem lykilsamgöngumannvirki fyrir gangandi og hjólandi og umferð Borgarlínunnar. Vonir standa til þess að brúin verði áberandi kennileiti á höfuðborgarsvæðinu.
Fyrir hönd samstarfsaðilanna bauð Vegagerðin keppnina út á Evrópska efnahagssvæðinu. Ríkiskaup héldu utan um samkeppnina og samskipti á tilboðstíma. Keppnin var í tveimur þrepum og var algjörrar nafnleyndar gætt á báðum þrepum. Trúnaðarmaður frá Ríkiskaupum annaðist öll samskipti við keppendur. Dómnefnd vissi því ekki hverjir stóðu á bak við þær tillögur sem bárust í keppnina eða hver það var sem bar sigur úr býtum fyrr en úrslit voru birt.
Mat dómnefndar í seinna þrepi fólst í því að meta tillögur keppenda út frá ásýnd, umhverfi, tæknilegri útfærslu og áætlunum, þar með talið kostnaðarmati mannvirkisins. Í dómnefnd sátu fulltrúar Reykjavíkurborgar, Kópavogsbæjar, Vegagerðarinnar og Félags íslenskra landslagsarkitekta.
Sigurtillagan ber nafnið Alda. Upphafleg kostnaðaráætlun bjóðenda var um 4,1 milljarður króna, sem eru rúmir 5 milljarðar að núvirði, og var sú upphæð án óvissu um kostnaðarbreytingar á hönnunartíma. Verkefnið var þá á algjörum frumstigum hönnunar með allt að 100% óvissu um kostnað.
Verkefnið er nú á síðasta hönnunarstigi áður en farið verður í framkvæmdir. Kostnaðaráætlun í dag á sambærilegu umfangi framkvæmda og í sigurtillögunni er metin á 8,3 milljarð króna. Annað umfang verkefnisins er að andvirði 500 milljónir króna sem skýrist af landfyllingu í Skerjafirði.
Þess má geta að til viðbótar hefur útfærsla landfyllinga breyst og stækkað vegna öryggiskrafna Reykjavíkurflugvallar meðal annars. Vegna nálægðar við Reykjavíkurflugvöll eru öryggiskröfur á framkvæmdatíma auknar miðað við sambærileg verkefni og kemur það fram í kostnaðartölum.
Alda er að mörgu leyti einstakt mannvirki, m.a. er brúin mun breiðari en hefðbundin brú. Þannig er hún um 17 metra breið þar sem hún er breiðust, samanborið við t.d. Þorskafjarðarbrú sem um 10 m á á breidd. Kröfur um aðskilnað göngu- og hjólastíga og viðbót Borgarlínu við mannvirkið útskýra þessa breidd.
Áætlaður verktakakostnaður á fermetra Fossvogsbrúar er um 1,4 milljónir króna. Sérstakar kröfur eru gerðar til Fossvogsbrúar vegna staðsetningar hennar og er áætlað að þær kosti 0,2 milljónir krónur á fermetra. Til samanburðar má benda á að verktakakostnaður við brú yfir Þorskafjörð, sem nýlega var tekin í notkun, var 0,9 milljónir króna á fermetra. Ekki er unnt að beita sömu byggingaaðferð við Fossvogsbrú vegna aðstæðna í brúarstæði.
Þróun verkefnis Fossvogsbrúar er að mörgu leyti óvenjulegt. Ákveðið var að verkefnið færi í gegnum hönnunarsamkeppni. Þátttakendur í samkeppninni gátu hvorki stuðst við jarðfræðirannsóknir né leitað upplýsinga hjá hagaðilum við gerð kostnaðarmats vegna nafnleyndar á samkeppnistíma. Mannvirkið er auk þess nokkuð óhefðbundið vegna þeirra sérstöku krafna sem til þess voru gerðar. Framangreint kann að skýra að einhverju leyti þann misskilning sem gætt hefur í fréttaflutningi af framvindu verkefnisins.
Fréttin hefur verið uppfærð.