Samgöngustígurinn er samstarfsverkefni Vegagerðarinnar og Mosfellsbæjar og eitt af fyrstu stígaverkefnum sem heyra undir Samgöngusáttmálann.
Samgöngustígurinn liggur í gegnum Ævintýragarðinn frá íþróttasvæðinu við Varmá og að nýja hverfinu í Leirvogstungu. Um er að ræða tæplega 1,7 km langan og 5 m breiðan stíg, þar sem annars vegar eru hjólareinar hvor í sína áttina og hins vegar hefðbundinn göngustígur. Hluti þessara framkvæmda var bygging tveggja nýrra brúa, yfir Varmá og Köldukvísl.
Þau Ásgeir Pétur Ásgeirsson og Elísabet Steinunn Andradóttir, sem eru í 4. bekk í Krikaskóla, klipptu á borðana við vígsluna. Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri samgangna ohf. og Halla Karen Kristjánsdóttir, formaður bæjarráðs í Mosfellsbæ sögðu nokkur orð við athöfnina. Tindatríóið söng nokkur lög og að lokinni athöfn hjóluðu nemendur í 4. bekk í Krikaskóla eftir hinum nývígða stíg.
Börnum og öörum gestum var síðan boðið upp á safa, kaffi og kleinur. Undir sögn tríóið og fékk þá liðsauka frá Sigurði Inga í einu laginu.
Mosfellsbær hélt utan um verkið, stýrði hönnun, sá um útboð og var formlegur verkkaupi verksins. Vegagerðin hafði umsjón með umferðaröryggisrýni og var Mosfellsbæ innan handar við verkið eftir því sem þörf var á.
Hönnun verksins var í höndum Mannvits og Landmótunar. Verktakinn var Karína ehf. og VSÓ Ráðgjöf annaðist eftirlit.
Framkvæmdir hófust síðla hausts árið 2020 en mest var um að vera 2021. Í vor og sumar fór fram lokafrágangur.