Nýr forstöðumaður Verkefnastofu Borgarlínu

Ásdís Kristinsdóttir tekur tímabundið við stöðu forstöðumanns Verkefnastofu Borgarlínu hjá Vegagerðinni þann 1. maí næstkomandi. Hún tekur við keflinu af Arndísi Ósk Ólafsdóttur Arnalds, sem ráðin hefur verið í stöðu framkvæmdastjóra mannvirkjasviðs Vegagerðarinnar.

Ásdís hefur góða þekkingu og reynslu af starfsemi Verkefnastofu Borgarlínu, en hún hefur áður leyst af sem staðgengill forstöðumanns.

Hún á að baki 12 ára starfsreynslu hjá Veitum og Orkuveitu Reykjavíkur þar sem hún gegndi síðast starfi forstöðumanns tækniþróunar en þar áður gegndi hún starfi forstöðumanns verkefnastofu og sviðsstjóra tæknimála. Á undanförnum árum hefur Ásdís setið í stjórnum Gagnaveitu Reykjavíkur, Keilis – miðstöðvar fræða og vísinda, Metans og Nýorku. Þá hefur hún kennt mastersnemum í iðnaðarverkfræði við Háskóla Íslands straumlínustjórnun.

Ásdís er annar eigandi ráðgjafarstofunnar Gemba, sem sérhæfir sig í ráðgjöf á sviði umbótamenningar, ferlagreininga, verkefnastjórnunar og stefnumótunar.

Ásdís er vélaverkfræðingur MSc. frá Canterbury University á Nýja Sjálandi. Hún hefur lokið námi í ICF vottuðu markþjálfunarnámi og C-vottun í IPMA í verkefnastjórnun.