→ Ártúnshöfði → Suðurlandsbraut
→ Hlemmur → Miðborg → HÍ
→ BSÍ → Fossvogur → Kársnes → Hamraborg →
Með skýrslunni eru lagðar fram fyrstu heildstæðu tillögurnar að útfærslu borgarlínuframkvæmda, frá Ártúnshöfða að Hamraborg, sem er fyrsta framkvæmdalota Borgarlínunnar. Sú vinna byggir á ítarlegri rannsóknarvinnu og greiningum á samgöngukerfi höfuðborgarsvæðisisns og þróunarásum þess.
Í skýrslunni er að finna vel ígrundaðar tillögur sem leggja grunn að frekari hönnunarvinnu og þau formlegu ferli sem eru nauðsynlegur undanfari að endanlegri ákvörðun um framkvæmdirnar.
Ásamt því að vera frumdragaskýrsla þá er skýrslan hugsuð til að hjálpa fólki að skilja hvað Borgarlínan er og hvernig hún, sem umbreytingarafl, getur hjálpað til við að bæta samgöngur allra ferðamáta á höfuðborgarsvæðinu.
Skýrslunni er skipt í fjóra hluta.
Borgarlínustöðvar verða ný kennileiti fyrir höfuðborgarsvæðið og er mikilvægt að þær verði vandaðar, aðlaðandi og aðgengilegar. Við þær skapast víða möguleikar á uppbyggingu verslunar og þjónustu og verða þær mikilvægir útgangspunktar í þróun nýrra hverfiskjarna.
Í skýrslunni er m.a. farið yfir hvaða götusniði er mælt með fyrir hvern legg fyrir sig. Göturýmið getur verið ólíkt eftir staðháttum, en þó er alltaf leitast við að nálgast „kjörsnið“ Borgarlínunnar, sem tryggir öllum fararmátum góða innviði með áherslu á gera umhverfið bæði grænt og aðlaðandi.
Borgarlínubrautir verða oftast miðlægar og akbrautir beggja vegna. Sú útfærsla er algengust í nýlegum hágæða almenningssamgöngukerfum en þannig eru tafir almenningssamgangna lágmarkaðar og hægt er að tryggja gott aðgengi er að stöðvum.
Gatnamót munu víða breytast við uppbyggingu Borgarlínunnar. Á ljósastýrðum gatnamótum ekur Borgarlínan oftast í miðlægu sérrými en þá er aðeins skörun við bílaumferð sem beygir til vinstri. Leitast verður við að sleppa vinstri beygjum til að tryggja greiðfærni Borgarlínunnar og um leið fækka bágapunktum, auka umferðaröryggi og skörun Borgarlínunnar við aðra umferð.
Fyrsta lota Borgarlínunnar er um 14 km löng og liggur milli Ártúnshöfða í Reykjavík og Hamraborgar í Kópavogi, þar af verða rúmlega 11 km í sérrými. Fyrstu áætlanir gera ráð fyrir 24 stöðvum, en það kann að breytast í hönnunarferlinu. Framkvæmdakostnaður við 1. lotu Borgarlínunnar er áætlaður 24,9 milljarðar.
Samhliða uppbyggingu á Borgarlínunni er gert ráð fyrir 18 km af nýjum hjólastígum og 9 km af göngustígum.
Með umbreytingu á göturýminu gefst tækifæri til að auka gæði þess, með gott aðgengi og grænt, aðlaðandi umhverfi að leiðarljósi.
Vatnsmýrin séð úr borgarlínuvagni.