Tæp 60% vilja nýta aðra ferðamáta en einkabílinn

Þetta er meðal niðurstaðna úr mælingum Maskínu sem hefur spurt höfuðborgarbúa annars vegar hvernig þeir ferðist til og frá vinnu og hins vegar hvernig þeir væru helst til í að ferðast þá leið. Alls hefur Maskína lagt þessar spurningar fyrir þrisvar sinnum; í ágúst 2019, febrúar og júní 2020.

Hlutfall þeirra sem ferðast oftast til vinnu sem bílstjórar á einkabíl hefur farið úr tæplega 72% niður í 63% milli ára. Á sama tíma fjölgaði þeim sem nota oftast strætó, hjóla, ganga eða ferðast sem farþegar í einkabíl.

Hlutur einkabílsins minnkar umtalsvert þegar fólk er innt eftir því hvaða ferðamáta það myndi helst vilja nýta mest, en þá fer hlutur einkabílsins úr 42,6% niður í 35,3% milli ára. Af þeim sem keyra í vinnuna segjast um helmingur vilja gera það áfram, 21% sjá fyrir sér að nota reiðhjól, 14% fótgangandi og um 6% í Strætó.

Um 26,7% höfuðborgarbúa myndu helst vilja hjóla á reiðhjóli í vinnuna, frá 19,9% árið áður, en 19,7% myndu kjósa að ganga, 8% að nota strætó og 4,5% að fá far í einkabíl. Þeir sem myndu helst vilja nota „annan hátt“ fara úr 2,6% upp í 5,1% sem rekja má að mestu til aukinnar rafskutluvæðingar.

Þetta eru jákvæðar fréttir fyrir umhverfið okkar og lýðheilsu höfuðborgarbúa og í samræmi við eflingu almenningssamgangna sem mun eiga sér stað á næstu árum, frá þróun Borgarlínunnar og Strætó til umfangsmikilla endurbóta á hjóla- og göngustígakerfi.

Nánar má lesa um kannanir Maskínu á ferðamátum