Nýr yfirmaður verkefnastofu Borgarlínu hjá Vegagerðinni

Arndís Ósk Ólafsdóttir Arnalds er nýr yfirmaður verkefnastofu Borgarlínu hjá Vegagerðinni.

Arndís er komin til starfa og hefur yfirumsjón með öllum verkefnum Borgarlínu hjá Vegagerðinni. Borgarlínan er samstarfsverkefni Vegagerðarinnar, Betri Samgangna og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og er unnið í nánu samstarfi þessara aðila.

Arndís hefur mikla reynslu af verkefnastjórnsýslu, áætlanagerð og undirbúningi umfangsmikilla opinberra framkvæmda. Hún hefur einnig mikla og farsæla reynslu af því að leiða opinber innviðaverk með ólíkum hagaðilum. Arndís hefur undanfarin 14 ár unnið hjá OR og Veitum, nú síðast sem forstöðumaður vatns- og fráveitu. Hún sat einnig í framkvæmdarstjórn Veitna.

Á verkefnastofu Borgarlínu hjá Vegagerðinni starfa sérfræðingar á sviði samgöngumála og gatna- og stígahönnunar. Hópurinn samanstendur af starfsmönnum Vegagerðarinnar, sveitarfélaga og innlendum og erlendum stoðráðgjöfum Borgarlínu.