Hugmynda­sam­keppni um götugögn á Borgar­línu­stöðvar

Borgarlínan í samvinnu við Hönnunarmiðstöð Íslands efnir til hugmyndasamkeppni um götugögn við Borgarlínustöðvar. Skilafrestur er 3 júní og markmið samkeppninnar er að fá fram sterka heildarmynd fyrir Borgarlínustöðvar.

Borgarlínan er samvinnuverkefni sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og ríkisins. Hún mun tengja sveitarfélögin og styrkja samgöngur milli þeirra og innan hvers fyrir sig.

Markmið og umfang

Markmið samkeppninnar er að fá fram sterka heildarmynd (konsept) fyrir Borgarlínustöðvar. Á stöðvum Borgarlínunnar skal heildstætt útlit einkenna og aðgreina kerfið frá hefðbundnu strætisvagnakerfi. Götugögnin sem einkenna stöðvarnar skulu hafa samræmt yfirbragð en þjóna mismunandi tilgangi á stöðvunum. Tilgangurinn með samkeppninni er að til verði banki af götugögnum sem hægt er að velja úr eftir þörfum á hverri stöð.
Götugögnin munu einkenna Borgarlínuna í öllum sveitarfélögum og stuðla að betri og heildstæðari borgarbrag. Götugögnin skuli stuðla að auknum gæðum í byggðu umhverfi og hafa jákvæð áhrif á upplifun notenda.

Meginmarkmiðin eru

  • Að þróa heildarhugmynd fyrir Borgarlínustöðvar.
  • Að til verði framleiðslulína af götugögnum sem einkenna munu Borgarlínuna.
  • Að götugagnalínan hafi sterkt heildaryfirbragð.
  • Að götugögnin séu haganlega útfærð með möguleika á mismunandi útfærslum,
    t.d. bekkir með baki, handstoðum, mismunandi lengdum o.þ.h.
  • Að efnisval og útfærsla taki mið af hagkvæmni í framleiðslu, viðhaldi og uppsetningu götugagna.
  • Að götugögnin uppfylli kröfur um algilda hönnun, þá sérstaklega þarfir og upplifun fólks með fatlanir, líkt og sjónskerta, hreyfihamlaða og fleiri. Til hliðsjónar skal hafa leiðbeiningar um algilda hönnun utandyra.Sjá hér.

Þau götugögn sem þarf að útfæra innan línunnar eru:

  • Bekkir
  • Tyllibekkir (leaning rail)
  • Grindverk
  • Handrið
  • Pollar
  • Standar og fletir fyrir upplýsingar, rauntíma og prentaðar.
  • Hjólastæði
  • Ruslastampar
  • Gróðurker
  • Létt skýli (stærri skýli eru undanskilin þessari samkeppni)

Stöðvarpallarnir sjálfir eru ekki hluti af keppninni. Eingöngu er átt við götugögn sem staðsett eru á pallinum og í tengslum við Borgarlínu. Alla jafna skulu götugögnin vera staðsett í götugagnalínu í baklínu stöðvarpallsins og þarf að miða stærðir þeirra útfrá þeirri línu, fjöldi og tegundir götugagna á stöðvum ákvarðast af stærðum og tegundum stöðva (sjá skýringarmyndir hér fyrir neðan).

Nánari upplýsingar má finna á vef Hönnunarmiðastöðvar