Formatyka sigrar í samkeppni um götugögn fyrir Borgar­línuna

Hönnunarmiðstöð Íslands og Borgarlínan stóðu á dögunum fyrir samkeppni um götugögn á Borgarlínustöðvar en tilkynnt var um sigurvegara keppninnar í gær við athöfn í Ráðhúsi Reykjavíkur. Í fyrsta sæti var tillagan Lifa, njóta, ferðast – endurtaka eftir þau Krystian Dziopa og Iga Szczugiel sem saman mynda hönnunarteymið Formatyka.

Annað sætið hlaut tillagan Taktur eftir Önnu Leoniak og Bjarna Kristinsson en þriðja sætið hlotnaðist þeim Karli Kvaran, Lilju Kristínu Ólafsdóttur og Sahar Ghaderi með tillöguna Línan. Alls bárust 16 tillögur í samkeppnina en þrjár þeirra hlutu verðlaun, auk þess sem dómnefnd veitti þrem teymum sérstaka viðurkenningu fyrir vel útfærðar tillögur.

Í umsögn dómnefndar segir:„Tillagan skapar nútímalega táknmynd fyrir Borgarlínu framtíðarinnar og býr til sterkt kennileiti í umhverfinu sem eykur á gæði almenningsrýma. Tillagan byggir á fjölhæfu einingarkerfi og því er auðvelt að laga hana að fjölbreyttum aðstæðum innan borgarlandslagsins. Öll götugögn eru að fullu aðlöguð og felld inn í tillöguna á snjallan hátt. Efnisval, áferðir og litir vinna vel saman og lífga upp á bæjarbraginn. Einstök tillaga með vandaðar lausnir á aðgengi allra.“

Dómnefnd skipuðu Þráinn Hauksson, Marcos Zotes, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, Björg Fenger og Rut Káradóttir.

Með götugögnum er átt við hluti á borð við bekki, upplýsingaskilti, ruslatunnur, ljósastaura og minni skýli. Tilgangurinn með samkeppninni var að til verði banki af götugögnum sem hægt er að velja úr eftir þörfum á hverri stöð. Götugögnin, sem einkenna munu Borgarlínustöðvarnar í öllum sveitarfélögum, eiga að hafa samræmt og einkennandi yfirbragð sem mun stuðla að betri og heildstæðari borgarbrag auk þess að bæta upplifun notendans.

Allar tillögurnar verður hægt að skoða á sýningunni Næsta Stopp: Hamraborgen hún opnar 25. júni kl 16:15 í Bókasafni Kópavogs og stendur til 3. ágúst.