Borgarlínan

beinustu leið til framtíðar

1. Hvað er Borgarlínan?

 • Borgarlínan er metnaðarfullt verkefni um nýtt hágæða almenningssamgöngukerfi á höfuðborgarsvæðinu.

 • Höfuðborgarsvæðið hefur þróast á síðustu áratugum frá því að vera sex ótengd sveitarfélög yfir í eitt heildstætt atvinnu- og búsetusvæði. Borgarlínan verður lífæð uppbyggingar og þróunar höfuðborgarsvæðisins og mun stuðla að áhugaverðu og spennandi stórborgarsvæði hérlendis þar sem lífsgæði almennings eru í fyrirrúmi.

2. Á vegum hvers er hún?

 • Borgarlínuverkefnið er hluti af samgöngusamningi sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og ríkisins sem gerir ráð fyrir stórátaki í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu á næstu 15 árum. Greiningarvinna og undirbúningur er þegar hafinn og miðað er við að verkhönnun hefjist árið 2020.

3. Hvað með Strætó?

 • Náin samvinna er á milli Verkefnastofu Borgarlínu og Strætó bs. þar sem stefnt er að því að almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu myndi heildstætt tveggja laga kerfi, annars vegar kerfi Borgarlínu og annarra stofnleiða Strætó og hins vegar almennar strætóleiðir.

 • Vinnuhópur um nýtt heildstætt leiðakerfi Borgarlínu og Strætó hóf endurskoðun leiðarkerfis almenningssamgangna snemma árs 2019. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir við Borgarlínu og nýtt leiðakerfi verði komnar á fullan skrið árið 2021 og akstur eftir nýju sameiginlegu leiðakerfi hefjist árið 2023.

4. Hver er tilgangurinn með Borgarlínu?

 • Hugmyndafræðin á bakvið Borgarlínu og nýtt skilvirkt almenningssamgöngukerfi er að skapa tengingu fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins sem stuðlar að því að alltaf verði hægt að komast á milli helstu kjarna svæðisins á skilvirkan hátt með vistvænum ferðamáta.

5. Hver eru helstu einkenni Borgarlínu?

 • Akstur í sérrými óháð annarri umferð.

 • Forgangur á gatnamótum.

 • Jafnt yfirborð án hraðahindrana sem gerir aksturinn þægilegan fyrir farþega.

 • Stoppistöðvar sem eru við sérrýmið þannig að vagnarnir þurfa ekki að aka inn í vasa.

 • Aðgengi við stöðvar er óhindrað, þannig að hægt er að ganga beint inn í vagnana af brautarpöllum.

 • Vagnar Borgarlínu eru stærri en strætisvagnar og geta tekið um 150-200 farþega.

 • Áreiðanlegur ferðatími og há tíðni, þ.e. 7,5-10 mín á milli vagna.

Fréttir

2. september 2019

Kynningarfundur um nýtt leiðanet Strætó

Kynningarfundur um nýtt leiðakerfi Stætó var haldinn 2. september fyrir félagsmenn í Samtökum um bíllausan lífsstíl. Frekari kynningar fyrir almenning eru fyrirhugaðar á næstu vikum og mánuðum. Með tilkomu Borgarlínu þarf að aðlaga leiðakerfi Strætó að Borgarlínu þar sem hún mun að hluta til aka sömu vegkafla og núverandi leiðakerfi Stætó. Nýja leiðanetið er skipulagt til að tengja vagna Strætó við stofnleiðanet Borgarlínu. Þá kalla skipulagsbreytingar á Hlemmi og á umferðarmiðstöð BSÍ einnig á breytingu á núverandi leiðakerfi Strætó.

Stefnumótunarvinna vegna breytinga á leiðakerfinu hófst í febrúar en þá var skipaður faghópur um verkefnið sem áætlað er að skili tillögum til stjórnar Strætó í nóvember á þessu ári. Af hálfu Strætó er lögð áherslu á að samráð verði haft við íbúa höfuðborgarsvæðisins í þessari vinnu. Í faghópnum eru fulltrúar frá Strætó, sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu, Vegagerðinni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og Samtökum um bíllausan lífstíl.

15. ágúst 2019

Samið við Mannvit og COWI um nýtt samgöngulíkan fyrir höfuðborgarsvæðið

Í dag var gengið frá samningi við Mannvit og dönsku ráðgjafastofuna COWI um gerð nýs samgöngulíkans fyrir höfuðborgarsvæðið.

Með nýju samgöngulíkani er stefnt að nákvæmari greiningum en hægt hefur verið að fá hingað til á samspili ólíkra ferðamáta. Líkanið er forsenda þess að hægt sé t.d. að meta samspil Borgarlínu og breytts leiðanets Strætó og verður jafnframt grunnur að greiningum á borð við leiðarskipulag, vagnastærðir, vagnafjölda, loftslagsáhrif, samfélagsleg áhrif og kostnaðarmat.

Óskað var eftir tilboðum í nýtt samgöngulíkan fyrir höfuðborgarsvæðið þann 4. júní síðastliðinn og bárust fimm tilboð sem öll voru frá mjög hæfum sérfræðingum og gerðu öll ráð fyrir samvinnu innlendra og erlendra sérfræðinga. Þetta voru fyrirtækin EFLA í samvinnu við sænsku ráðgjafana WSP, Mannvit í samvinnu við dönsku ráðgjafana COWI, Intraplan Consult sem er þýskt ráðgjafafyrirtæki, Verkís í samvinnu við Multiconsult í Noregi og T-Mode í Serbíu og VSÓ ráðgjöf í samvinnu við PTV Group í Þýskalandi.

Tilboð Mannvits og COWI fékk hæstu einkunn þriggja manna dómnefndar og því var gengið til samninga við þau. Gert er ráð fyrir að líkanið verði tilbúið í janúar 2020. Eitt af lykilmarkmiðum Borgarlínuverkefnisins er að tryggja uppbyggingu innlendrar þekkingar á sviði almenningssamgangna og samspili ólíkra ferðamáta.

6. júlí 2019

Verkefnastofa Borgarlínu tekur til starfa

Verkefnastofa Borgarlínu hefur tekið formlega til starfa og mun sinna undirbúningi fyrir fyrsta áfanga Borgarlínu á höfuðborgarsvæðinu. Verkefnastofan starfar á grundvelli samnings Vegagerðarinnar og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, sem lagður var grunnur að í samgönguáætlun. Samkomulagið felur í sér að Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) og Vegagerðin skipta með sér kostnaði vegna undirbúningsvinnunnar á árunum 2019 og 2020 og brúa þannig bil þar til samkomulag hefur náðst um fyrirkomulag og fjármögnun á öllum samgöngukerfum á höfuðborgarsvæðinu næstu 15 árin.

Verkefni stofunnar er að ljúka forhönnun Borgarlínu, yfirfara leiðarkerfi almenningssamgangna, kostnaðarmat, skipulagsvinna og gerð umhverfismats, þannig að í framhaldinu verði hægt að hefja verkhönnun og undirbúa gerð útboðsgagna fyrir framkvæmdir.

Stýrihópur eigenda fer með yfirstjórn Verkefnastofunnar og tryggir sterkt eignarhald verkefnisins. Framkvæmdastjórn þess er í höndum framkvæmdastjóra SSH og forstjóra Vegagerðarinnar en verkefnisstjóri er Hrafnkell Á. Proppé svæðisskipulagsstjóri hjá SSH.

Á verkefnastofunni eru þrír verkefnastjórar sem mynda verkefnateymi, þau Bryndís Friðriksdóttir samgönguverkfræðingur, Hrafnkell Á. Proppé skipulagsfræðingur og Lilja G. Karlsdóttir samgönguverkfræðingur. Verkefnateymið mun njóta stuðnings sérfræðinga Vegagerðarinnar, sveitarfélaganna og Strætó bs. Í undirbúningsferlinu verður jafnframt leitað til utanaðkomandi ráðgjafa, bæði innlendra og erlendra.

6. september 2019

Leit að hönnunarráðgjafa fyrir Borgarlínu hafin

Segja má að leit að hönnunarráðgjafa vegna Borgarlínu hafi byrjað þann 6. september sl. þegar Verkefnastofa Borgarlínu hóf að miðla upplýsingum um verkefnið til helstu sérfræðinga á þessum vettvangi bæði hér á landi og erlendis, til að kanna áhuga þeirra. Það ferli sem nú er hafið kallast á ensku Request for Information (RFI) og stendur til 1. október 2019. Í kjölfarið er gert ráð fyrir að halda opinn kynningarfund þar sem íslenskum og erlendum sérfræðingum sem áhuga hafa á verkefninu verður boðið að koma og fá frekari upplýsingar og að byggja upp verkefnateymi sem síðan verður boðið í forvalsútboð.

Á næstu mánuðum fer fram fjölþætt greiningavinna hjá Verkefnastofu Borgarlínu sem meðal annars miðar að því að svara spurningum um nákvæmar staðsetningar á stöðvum, hvaða orkugjafi henti best, áhrif Borgarlínu á umhverfið, loftslag og aðra ferðamáta og hvernig hægt sé að tryggja aðlaðandi umhverfi fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins. Samhliða þessari greiningarvinnu þarf að skrifa útboðsgögn fyrir verkhönnun Borgarlínu og finna hönnunarráðgjafa fyrir verkefnið.