Spurningar og svör

1. Hvað er Borgarlína?

 • Borgarlína er nýtt og afkastamikið almenningssamgöngukerfi sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu undirbúa nú í sameiningu. Borgarlína mun aka á sérakreinum að mestu aðskilin frá almennri umferð og tengja saman sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu.
 • Borgarlína styttir ferðatíma og með aukinni ferðatíðni Borgarlínu fá íbúar á höfuðborgarsvæðinu fjölbreyttari ferðavalkosti.
Meira: Greiningarskýrsla COWI

2. Er Borgarlína lest?

 • Nei – á leiðum Borgarlínu munu aka stórir nútímalegir strætisvagnar (liðvagnar), sem geta tekið allt að 150 farþega í einu.
 • Vagnar Borgarlínu munu ganga fyrir innlendum og umhverfisvænum orkugjöfum og stuðla þannig að því að draga úr loftlagsáhrifum og hávaðamengun frá umferðinni.
 • Lögð verður áhersla á þægilegar og aðgengilegar upphitaðar stoppistöðvar, þar sem upplýsingar um næstu ferðir munu birtast í rauntíma.
Meira: Kynningarglærur SSH, sérstaklega glærur 12-14

3. Hvers vegna Borgarlína?

 • Borgarlína er samstarfsverkefni sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu til að bregðast við fyrirsjáanlega auknum umferðarþunga á næstu 25 árum.
 • Skipulagning Borgarlínu er lykilverkefni í þróun byggðar á höfuðborgarsvæðinu. Með henni er stuðlað að því að fjölgun íbúa og ferðamanna næstu áratugi hafi ekki þau áhrif á umferð að tafir í henni margfaldist. Borgarlína eykur afköst almenningssamgangna, sérstaklega á svæðum þar sem byggð er þétt eða hægt er að þétta hana.
 • Með því að nútímavæða almenningssamgöngur minnkar þörf margra fyrir einkabíl og fjölgun þeirra á götunum verður minni en ella.
 • Borgarlína mun greiða fyrir umferð og stytta ferðatíma allra, líka þeirra sem kjósa að ferðast á einkabílum.
Meira: Samkomulag  um undirbúning að innleiðingu hágæða almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu

4. Hvað ef við sleppum Borgarlínu?

 • Ef ekki verður af Borgarlínu er óhjákvæmilegt að fjárfesta í vega- og gatnakerfi höfuðborgarsvæðisins fram til ársins 2040 fyrir allt að 250 miljarða króna.
 • Til viðbótar verður nauðsynleg fjárfesting í bílastæðum á sama tíma allt að 100 milljarðar króna.
 • Þrátt fyrir ofangreindar fjárfestingar munu umferðartafir nær tvöfaldast fram til ársins 2040.
 • Áætlað er að bílferðum fjölgi úr 1 milljón á dag í 1,3 milljónir á dag.
 • Samgöngukostnaður einstaklinga verður meiri og loft- og hávaðamengun frá umferðinni eykst.
Meira: Skýrsla Mannvits, mat á samgöngusviðsmyndum

 5. Hvað kostar Borgarlína?

 • Meginkostnaður við Borgarlínu fellst í gerð sérakreina sem eru aðskildar frá almennri umferð.
 • Heildarkostnaður fullbyggðrar 58 km Borgarlínu er áætlaður um 70 miljarðar.
 • Kostnaður við fyrstu áfanga Borgarlínu gæti numið á bilinu 20 til 25 miljörðum króna.
 • Borgarlína er ekki hrein viðbót við annan samgöngukostnað á svæðinu því með henni verður hægt að fresta og jafnvel sleppa öðrum dýrum vegaframkvæmdum.
Meira: Skýrsla Mannvits Borgarlína, kennisnið og kostnaðarmat

6. Hvenær kemur Borgarlína?

 • Talið er að hægt verði að ljúka 1. áfanga Borgarlínu á fimm árum frá því að ákvörðun er tekin. Það ræðst þó af því að ríkið og sveitarfélögin nái samkomulagi um fjármögnun verksins.
 • Í Stavanger í Noregi er verið að byggja 50 km langt borgarlínukerfi á 8 árum. Ef sami hraði yrði á Borgarlínu verkefninu hér væri hægt að ljúka því á 10 árum frá því að framkvæmdir hefjast.
Meira: Stavangerverkefnið

7. Hvað með aðrar framkvæmdir á vegakerfi höfuðborgarsvæðisins?

 • Borgarlína verður einn liður í samhæfðu samgönguneti á höfuðborgarsvæðinu.  Eftir sem áður verður haldið áfram að fjárfesta í öðrum umferðarmannvirkjum en þörfin fyrir þær fjárfestingar verður þó ekki jafn mikil og ella.
Meira: Samkomulag um samstarf SSH og Vegagerðarinnar um þróun samgöngukerfa á höfuðborgarsvæðinu

8. Er höfuðborgarsvæðið nógu stórt til að bera Borgarlínu?

 • Uppbygging Borgarlínu er í samræmi við það sem er að gerast í löndunum í kringum okkur í álíka stórum og minni borgarsamfélögum.
 • Nær allar norrænar borgir af svipaðri stærð og höfuðborgarsvæðið eru að vinna að sambærilegum lausnum eða eru þegar komnar með þær. Þar á meðal má nefna borgir eins og Þrándheim, Álaborg, Oulo, Lund og Tromsö.
 • Árið 2016 var hafist handa við samsvarandi verkefni í Stavanger í Noregi þar sem útbúið verður sérrými fyrir stóra strætisvagna (liðvagna) og er miðað við að því ljúki 2024. Aðstæðum í Stavanger svipar mjög til okkar höfuðborgarsvæðis hvað varðar skipulag og fólksfjölda og einnig áætlaða fólksfjöldaþróun næstu 25 árin.
Meira: Kynning COWI – BRT in Scandinavia

9. Munu sjálfkeyrandi bílar gera Borgarlínu óþarfa?

 • Rannsóknir benda til að án öflugra almenningssamgangna aukist bílaumferð verulega með sjálfkeyrandi bílum. Þeir munu því ekki leysa þann vanda sem við er að etja á næstu árum.
 • Tæknin sem sjálfkeyrandi bílar byggja á verður að líkindum fyrst innleidd í almenningssamgöngum og lækkar þar með rekstrarkostnað þeirra, sem fellur vel að þróun Borgarlínu.
 • Í skýrslu OECD er gert ráð fyrir að sjálfkeyrandi einkabílar komi á almennan markað um eða eftir 2030 og leysi hefðbundna bíla af hólmi næstu 10 árin þar á eftir ef allt gengur upp.
Meira: Skýrsla OECD

10. Af hverju notum við ekki áfram hefðbundna strætisvagna?

 • Hefðbundnir strætisvagnar verða notaðir áfram meðal annars til að þjóna þeim hverfum sem Borgarlínan nær ekki til.
 • Í dag ná hefðbundnir strætisvagnar ekki að anna fjölda farþega á fjölmennustu leiðunum.
 • Áætlað er að með breyttum ferðavenjum muni fjöldi farþega í almenningsvögnum fjórfaldast miðað við það sem er í dag. Því þarf afkastameiri vagna.
Meira: Kynningarglærur SSH, sérstaklega glæra 9

11. Verður Strætó lagður niður?

 • Nei – það verður áfram rekið heilstætt almenningssamgangnakerfi á höfuðborgarsvæðinu. Borgarlínan kemur í stað núverandi stofnleiða, en hefðbundir vagnar Strætó munu áfram sinna þjónustu á öðrum leiðum.
Meira: Svæðisskipulagið Höfuðborgarsvæðið 2040, sjá markmið 2.2

 

Frekari upplýsingar um Borgarlínuverkefnið má finna á vefsíðu Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
Verkefnið er vistað hjá SSH, ssh.is